background image

Fréttir

Velkomin: Myndband!

2010-12-01 | Videoblog

Elsku vinir!
Fyrir rúmum mánuði síðan gáfum við út lagið 'Velkomin' og erum við mjög hamingjusamir með þau jákvæðu viðbrögð sem það hlaut. Myndbandið við umrætt lag er nú klappað og klárt og má sjá afrakstur erfiðisins og yndislegrar helgi hér fyrir neðan. Við erum óskaplega ánægðir með niðurstöðuna og vonum við innilega að þið séuð á sama máli.
Enn og aftur vil ég þakka Bowen Staines kærlega fyrir að hafa gert þetta að veruleika. Það eru ótrúlegir hlutir sem hann er fær um að gera einn síns liðs með eina myndavél, hjólabretti og ástríðuna að vopni.
Njótið vel!
 

Videoblog #2: Myndbandsupptökur

2010-11-03 | Videoblog


Halló elskurnar.
Um seinustu helgi gerðum við okkur ferð til okkar heimahaga; Sauðárkróks. Meginmarkmið ferðarinnar var að taka upp myndband við lagið 'Velkomin' sem við gáfum út fyrir stuttu, og til að gera langa og ótrúlega skemmtilega sögu stutta þá gekk það vonum framar. Myndbandið ætti að verða til í Desember og getum við, líkt og þið, ekki beðið.
Með okkur í för voru Bowen Staines sem sá um að renna sér á hjólabretti með myndavélina í fanginu og Myrra Rós sem sá um smink og að karlmennskan færi ekki úr böndunum. Bæði stóðu þau sig eins og hetjur og get ég með sanni sagt að án þeirra hefði helgin ekki verið ein sú besta sem ég hef lifað upplifað líkt og raunin varð. Þau eru dýrlingar og ég vona að þau lifi í 1000 ár. Sömuleiðis langar mig að þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg kærlega fyrir hjálpina. Íbúar vildu allt fyrir okkur gera; burðast með sviðsmyndina, lána/gefa okkur nytsamlegt dót og leika fórnarlömb okkar og það eina sem við gátum gert var að faðma þau og gefa þeim kleinuhring og kaffi. Ef þakklæti mitt væri pilsner þá væri ég ælandi. Takk!
Von bráðar mun ég setja inn glæsilegar myndir frá helginni úr vörslu Bowen hingað inn en þangað til getið þið horft á prýðilegt videoblog sem Fúsi setti saman. Njótið vel.

Myndband

2010-10-27 | Frétt


Sæl, elsku vinir.
Um næstu helgi munum við taka upp myndband við lagið 'Velkomin' sem ég ætlast til þess að þið hafið öll heyrt og elskað. Tökur munu fara fram á Sauðárkróki og mun uppáhalds íslandsvinur okkar allra, Bowen Staines, standa bakvið myndavélina. Ef þú, lesandi kær, ert búsettur á Sauðárkróki eða nágrenni og svo heppilega vill til að þú ert með stórgott skegg þá myndi það gleðja okkur óskaplega mikið ef við fengjum að nota þig sem lifandi leikmun. Ekki væri verra ef þú ert jafnframt kvenvera. Við tökum einnig með opnum örmum á móti austur-evrópskum kraftlyftingarfrömuðum, vandræðalega liðugum asískum börnum, sorgmæddum trúðum og gæfum ljónum.
Öll hjálp við þennan gjörning er vel þegin þótt þóknunin verði fátækleg. Faðmlög og kossar eru samt, eins og vel lesni maðurinn sagði, besta veganesti sem hægt er að fá á tímum sem þessum.  

Airwaves!

2010-10-12 | Frétt


Loksins! Partý! Drykkja! Tónlist! Bróðir Svartúlfs! Hundrað aðrir frábærir listamenn! Fallegt kynlíf! Ógeðslegt kynlíf! Hamingja! Samviskubit! AAAAIRWAVES!


Í ár munum við koma fram í tveimur ólíkum útsetningum: annarsvegar rafmagnaðir eins og við erum hvað frægastir fyrir en hins vegar akústik ásamt undrabarni á harmonikku. Við verðum með glænýtt efni í bland við það gamla góða og erum við ótrúlega spenntir fyrir því að deila þessum augnablikum með YKKUR! Bravó!